Kúnstpása: Sígildar óperuperlur

Hvar

Norðurljós

Hvenær 

21. maí 2019 kl. 12:15

| Um tónleikana

Nathalía Druzin Halldórsdóttir mezzósópran og Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari flytja aríur og sönglög eftir tónskáld á borð við Handel, Mozart, Verdi og Tchaikovsky.



Nathalía Druzin Halldórsdóttir mezzósópran lauk 8.stigs prófi árið 2006 frá Nýja Tónlistarskólanum og naut þar leiðsagnar Alinu Dubik. Fyrstu söngtímana tók hún í St. Pétursborg í Rússlandi þegar hún var þar í háskólanámi. Hún stundaði síðan nám hjá John A. Speight í Tónskóla Sigursveins, var einn vetur í Söngskólanum í Reykjavík hjá Elísabetu Eiríksdóttur auk þess sem hún tók einkatíma bæði í Danmörku og Bandaríkjunum. Nathalía var einn af sigurvegurum í keppninni „Ungir einleikarar“ 2009 og 2010 varð hún í þriðja sæti í Torneo Internazionale di Musica tónlistarkeppninni í Veróna á Ítalíu. Hún hefur tekið þátt í óperuuppfærslum á vegum Sumaróperunnar, Íslensku óperunnar og hjá Óperustúdíói Íslensku óperunnar, sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og verið mjög virk í tónleikahaldi m.a. á Tíbrártónleikum, í Gerðubergi, Sigurjónssafni, í Hörpu ofl.  Nathalía hefur komið fram á tónleikum í St.Pétursborg þar sem hún söng einsöng með Karlakór Reykjavíkur í St.Pétursborgar-Kapellunni. Hún flutti einnig tónlistardagskrá í  í Púshkin safninu í Moskvu og Gnesin tónlistarháskólanum með Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur píanóleikara. Nathalía hefur verið virkur flytjandi á tónlistarsviðinu hérlendis og hefur tónleikum með henni verið bæði útvarpað og sjónvarpað hjá Ríkisútvarpinu.


Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari


Anna Guðný Guðmundsdóttir hefur verið fastráðinn píanóleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 2005, en kemur einnig reglulega fram sem einleikari, meðleikari og kammermúsíkant, og hefur sem slíkur lagt drjúgan skerf til íslensks tónlistarlífs í 30 ár. Anna Guðný hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2009 sem flytjandi ársins, meðal annars fyrir rómaðan flutning og upptöku á Tuttugu tillitum til Jesúbarnsins eftir Olivier Messiaen, en hún hefur alls leikið inn á um 30 geislaplötur ein og með öðrum. Anna Guðný lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1979 og stundaði framhaldsnám við Guildhall School of Music í Lundúnum.

| Aðrir tónleikar

Share by: