Kúnstpása: Forever Young

Hvar

Hvenær 

4. október 2016 kl. 12:15

| Um tónleikana

Forever Young er yfirskrift annarra hádegistónleika Kúnstpásuraðar Íslensku óperunnar á þessu hausti í Norðurljósasal Hörpu þriðjudaginn 4. október. Þar koma fram þær Bylgja Dís Gunnarsdóttir sópransöngkona og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari.


Á efnisskránni verða nokkur fjölbreytt og falleg sönglög eftir bandarísk tónskáld frá 20. og 21. öld, m.a. tvö mögnuð lög eftir John Corigliano við ljóð Bob Dylans; Chimes of Freedom og Forever Young. Áður en að þeim kemur verða flutt lög eftir nokkra af áhrifavöldum þeirra. Má þar nefna Samuel Barber, Aaron Copland og Kurt Weill. 


Bylgja Dís útskrifaðist frá Royal Scottish Academy of Music and Drama árið 2007 með mastersgráður í tónlist og óperu. Hún hefur sungið óperuhlutverk hjá Íslensku óperunni, Bittish Youth Opera og víðar. Hún hefur verið meðlimur í Óp-hópnum frá stofnun hans og komið fram með hópnum á fjölmörgum tónleikum á undanförnum árum. Auk þess hefur hún haldið fjölda einsöngstónleika, komið fram með Royal Scottish National Orchestra og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins.


Hrönn stundaði nám hjá Jónasi Ingimundarsyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík, framhaldsnám í píanóleik við Tónlistarháskólann í Freiburg og við tónlistarháskólann í Stuttgart þar sem hún lauk árið 2007 sérhæfðu meðleikaranámi við ljóðasöngdeild skólans. Hrönn hefur komið fram á tónleikum víða, á Íslandi og á meginlandi Evrópu. Hún hefur verið virk í flutningi nýrrar tónlistar, m.a. á Myrkum músíkdögum, auk þess að hafa hljóðritað fyrir útvarp og leikið inn á geisladiska.


Allir eru velkomnir og enginn aðgangseyrir er á tónleikana, sem hefjast á slaginu kl. 12:15.

| Aðrir tónleikar

Share by: