Saga Íslensku óperunnar

Íslenska óperan var formlega stofnuð 3. október árið 1980 að frumkvæði Garðars Cortes og var markmiðið að gefa söngvurum tækifæri til þess að vinna að list sinni og að gera óperulistformið aðgengilegt fyrir íslenska áheyrendur.


Fyrsta uppfærslan var I Pagliacci eftir Leoncavallo í Háskólabíói árið 1979. Sýningar urðu fimm talsins fyrir fullu húsi. Sama ár tók Óperan við veglegri dánargjöf Helgu Jónsdóttur og Sigurliða Kristjánssonar kaupmanns og ári síðar festi hún kaup á Gamla bíói. Þar var aðsetur hennar um árabil. Hinn 9. janúar 1982 var fyrsta frumsýningin í Gamla bíói á Sígaunabaróninum eftir Strauss. Sýninguna sáu rúmlega 23.000 gestir á 49 sýningum.


Vorið 2011 urðu síðan kaflaskil í sögu Íslensku óperunnar, þegar hún flutti úr Gamla bíói í Hörpu. Fyrsta óperuuppfærsla Íslensku óperunnar í húsinu var Töfraflautan eftir W.A. Mozart sem var frumsýnd í október 2011.


Síðan Óperan var stofnuð hafa verið settar upp fjölmargar bæði uppfærslur á meistaraverkum óperubókmenntanna og nýrri verk, en íslenskir flytjendur hafa alltaf verið í miklum meirihluta. Erlendir listamenn hafa einnig unnið með Óperunni bæði sem flytjendur og listrænir stjórnendur.


Fjölmargir þeirra íslensku söngvara sem nú koma fram í erlendum óperuhúsum við góðan orðstír hafa komið fyrst fram á sviði Íslensku óperunnar. Fram til dagsins í dag hafa ríflega 400.000 gestir sótt sýningar Óperunnar og miðar verið seldir fyrir um það bil hálfan milljarð króna. Aðsóknarmetið á ennþá Sígaunabaróninn, sem ekki hefur verið slegið þótt aðsókn hafi verið mjög góð.



Það hefur verið fyrir mikla elju, metnað og fagmennsku stofnenda, listamanna og starfsfólks að Íslenska óperan hefur eignast mikilvægan sess í menningarlífi þjóðarinnar. Hún hefur áunnið sér mjög gott orðspor bæði innanlands og erlendis fyrir vandaða listviðburði sem standast alþjóðlegan samanburð.


Frá æfingu á Pagliacci í Háskólabíó 1979. Mynd: Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Óperustjórar


Garðar Cortes 1979 – 1999
Ólöf Kolbrún Harðardóttir 1990 – 1992
Bjarni Daníelsson 1999 – 2007
Stefán Baldursson 2007 – 2015
Steinunn Birna Ragnarsdóttir 2015 –

Share by: