Ómetanleg menningarverðmæti

des. 09, 2021

Augljóslega finnst mér liggja beint við að ef til stofnunar þjóðaróperu kemur yrði það gert á grunni Íslensku óperunnar þar sem allt er til staðar sem til þarf,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir



„Við vorum svo blessunarlega vel sett að við þurftum ekki að aflýsa neinum af okkar stóru verkefnum heldur færast þau milli ára. Eins og allir vita þá er meðgöngutími stórra óperusýninga mjög langur og því hefði orðið töluvert tjón ef þurft hefði að aflýsa verkefnum sem komin voru vel á leið. Þessi langi meðgöngutími kallar á mikilvægi þess að geta gert langtímaplön,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri Íslensku óperunnar (ÍÓ).


Stærstu verkefni komandi starfsárs hjá ÍÓ eru fjórar sýningar á óperunni La traviata , sem hætti fyrir fullu húsi á sínum tíma, í Eldborg og Hofi í samstarfi við Menningarfélag Akureyrar í nóvember og Valkyrjan í Eldborg í febrúar, sem sett er upp í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Íslands á Listahátíð í Reykjavík. Sem fyrr syngur Herdís Anna Jónasdóttir hlutverk Violettu, en hún hlaut Grímuverðlaunin 2019 sem söngvari ársins fyrir túlkun sína á hlutverkinu.


„ Valkyrjan átti fyrst að fara á svið vorið 2020 þannig að það hefur þurft að fresta þeirri uppfærslu tvisvar vegna Covid,“ segir Steinunn Birna. Sem fyrr er leikstjóri Julia Burbach og Tal Rosner sér um vídeóhönnun og útlit. Eva Ollikainen er hljómsveitarstjóri. Iréne Theorin syngur Brünnhilde og Kristinn Sigmundsson Hunding. „Vegna seinni frestunarinnar fáum við aftur Ólaf Kjartan Sigurðarson með í uppfærsluna í hlutverki Wotan sem er mikið gleðiefni, enda er hann nú orðinn alþjóðleg Wagner-stjarna eftir glæsilega frammistöðu sína á Wagner-hátíðinni í Bayreuth í Þýskalandi.“


Mikilvægt að gefa ungu listafólki sín fyrstu tækifæri

Að sögn Steinunnar Birnu hófst starfsárið raunar fyrr í september með vinnustofu vegna nýrrar óperu eftir Daníel Bjarnason um Agnesi Magnúsdóttur, sem ÍÓ pantaði af tónskáldinu. „Hingað komu gríski leikstjórinn Rodula Gaitanou og líbrettistinn Royce Vavrek frá Kanada til þess að vinna að undirbúningi,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að sköpunarferli óperunnar hafi byrjað 2018, en stefnt sé að frumsýningu haustið 2024. „Ég er að vinna að því að finna alþjóðlega samstarfsaðila til að tryggja uppfærslunni framhaldslíf. Ég veit að það verður auðvelt að vekja áhuga kollega minna erlendis á óperunni því Daníel er orðinn stórt nafn í tónlistar- og óperuheiminum og Royce er einn eftirsóttasti líbrettisti okkar tíma.“


Líkt og í fyrra verður boðið upp á tvær tónleikaraðir hjá Íslensku óperunni í vetur. „Þetta eru annars vegar Kúnstpásan sem haldin er mánaðarlega í hádeginu í Norðurljósum gestum að kostnaðarlausu og hefur göngu sína í október. Þar koma margir af okkar reyndustu söngvurum fram í bland við unga söngvara sem eru að kynna sig til leiks. Mér hefur alltaf fundist mikilvægt að gefa ungu listafólki sín fyrstu tækifæri,“ segir Steinunn Birna og bendir á að síðan hún tók við sem óperustjóri hafi 19 söngvarar debúterað hjá ÍÓ.

„Síðan eru það Söngskemmtanirnar sem við fórum af stað með í faraldrinum. Þar gleðja vel þekktir og reyndir söngvarar áheyrendur með fjölbreyttum verkum sem þeir kynna sjálfir,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að Óperuminningin, sem hóf göngu sína í faraldrinum, haldi áfram í samstarfi við RÚV. „Enda mæltist verkefnið mjög vel fyrir. Þar deila þátttakendur úr ýmsum áttum minningum sínum og óperuupplifunum.“


Önnur verkefni eru Örlagaþræðir þar sem Auður Gunnarsdóttir sópran, Lára Stefánsdóttir dansari og Snorri Sigfús Birgisson píanóleikari leiða saman krafta sína og flytja verk eftir Wagner og Schumann. „Hugmyndir um fræðslustarf vetrarins eru enn í mótun og verða vonandi að veruleika. Þröngur fjárhagur stofnunarinnar undanfarin ár hefur tafið að hægt sé að sinna fræðslustarfinu eins og við vildum. Við eigum mjög fallega barnasýningu um Hans og Grétu sem hæglega mætti stytta og einfalda með það að markmiði að leyfa nemendum að njóta,“ segir Steinunn Birna og rifjar upp að um 800 börn hafi séð sýninguna á sínum tíma. „Það er svo mikilvægt að ná eyrum og hjörtum barna meðan þau eru opin og hrífast af listforminu sem býr með þeim alla ævi,“ segir Steinunn Birna.


Covid þjálfað úthaldshæfni

Spurð hvernig ÍÓ komi undan Covid-tímanum segir Steinunn Birna að faraldurinn hafi sannarlega þjálfað úthaldshæfnina. „Það má segja að við höfum tímabundið misst hæfileikann til að vera undrandi eða vonsvikin. Veruleikinn okkar hefur verið í stöðugri endursköpun og forsendur hafa tekið sífelldum breytingum. Í svona ástandi skiptir öllu að hafa góð tengsl við tilganginn, bæði í starfinu og persónulega því þaðan tekur maður mesta styrkinn. Á síðustu mánuðum hefur reynt mest á heilbrigt raunsæi og hæfnina til að impróvísera,“ segir Steinunn Birna sem er þess fullviss að listaheimurinn komi út úr faraldrinum með sameiginlega vitund um að mannauðurinn og líðan fólks skipti öllu.

Ekki er hægt að sleppa Steinunni Birnu án þess að leita viðbragða hennar við skýrslu sem nefnd um stofnun þjóðaróperu skilaði af sér síðasta vor að beiðni mennta- og menningarmálaráðherra. Þar er lagt til að ráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á lögum um sviðslistir og lögfesti stofnun þjóðaróperu. Sér nefndin fyrir sér að stofnun þjóðaróperu kalli á fastráðningar söngvara, hægt sé að auka samstarfið við aðrar listastofnanir hérlendis og að frumsköpun íslenskra verka verði listrænt akkeri þjóðaróperu.


Kallar á aukið fjármagn

„Augljóslega finnst mér liggja beint við að ef til stofnunar þjóðaróperu kemur yrði það gert á grunni Íslensku óperunnar þar sem allt er til staðar sem til þarf. Íslenska óperan hefur þjónað íslensku þjóðinni af metnaði og stórhug síðustu 40 árin, oft af litlum efnum. Það hafa margir byggt upp mikilvægt starf til að þjóðin geti notið vandaðra óperusýninga á heimavelli. Það má því segja að stofnunin hafi, vegna reynslunnar og þessarar sögu, áunnið sér titilinn þjóðarópera Íslendinga. Þjóðarópera verður ekki til nema hún sé byggð á traustum grunni, eins og Íslenska óperan hefur upp á að bjóða með sitt alþjóðlega tengslanet, eignasafn, þekkingarskráningu og orðspor sem tekur langan tíma að byggja upp. Það eru ómetanleg menningarverðmæti,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að hvernig sem þessu verði háttað þurfi að skapa Íslensku óperunni rekstraröryggi þangað til svo hægt sé að standa við skuldbindingar.


„Hvernig svo sem rekstrarformið á þjóðaróperu verður, ríkisópera eða sjálfseignarstofnun, þá er ekki hægt að framkvæma hugmyndir um þjóðaróperu nema fyrir miklu meira fjármagn en nú er sett í þessa starfsemi,“ segir Steinunn Birna. Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt þjónustusamningi eru framlög ríkisins til Íslensku óperunnar nú um 220 milljónir króna á ársgrundvelli, en til samanburðar nema framlög ríkisins til reksturs Þjóðleikhússins um 1.500 milljónum króna á ársgrundvelli.


Spurð um gagnrýni skýrsluhöfunda þess efnis að ÍÓ sinni íslenskum verkum ekki nægilega vel segist Steinunn Birna ekki vera sammála því. „Við getum ekki verið allt fyrir alla. Í samningi við ráðuneytið kveður á um tvær stórar óperusýningar á ári og það er í samhljómi við stefnumótun okkar ásamt fjölmörgum þátttakendum og skoðanakannanir meðal okkar gesta sem eru mörg þúsund á hverju ári. Í flestum löndum er starfandi ópera sem þjónar stórum áhorfendahópi sem vill sjá vel þekktar óperur, en við höfum einnig átt frumkvæði að því að panta ný verk,“ segir Steinunn Birna og nefnir í því samhengi Agnesi og Brothers , sem ÍÓ framleiddi ásamt Den Jyske opera, ásamt óperu eftir Báru Gísladóttur. „Sem við pöntuðum, en gafst því miður ekki tækifæri til að sýna vegna Covid.


Samræmi þarf að vera í kröfum og möguleikum til útfærslu

Í nágrannalöndum okkar er alltaf sjálfstæð óperusena til viðbótar við óperuhúsin, eins og í leikhúsunum, þ.e. grasrót, sjálfstæðir óperuhópar og óperuhátíðir þar sem ný verk, oft á tilraunastigi, eru sýnd sem eiga þátt í því að þróa listformið áfram. Mér finnst ekki raunhæft að gera þær kröfur til Íslensku óperunnar að sjá um allar þessar breiðu þarfir listformsins. Það þarf að vera samræmi milli þess sem krafist er af stofnun og möguleikanna til að uppfylla þær kröfur, en þær afmarkast af því fjármagni sem fylgja verkefnum. Ef gerðar hefðu verið kröfur um að við sýndum aðallega íslenskar óperur hefðum við þurft talsvert meira fjármagn því eðli málsins samkvæmt er áhorfendahópurinn minni og niðurgreiðsla hvers miða því meiri,“ segir Steinunn Birna og bendir á að um 20% af rekstrarfé ÍÓ sé í formi sjálfsaflafjár frá miðasölu.


„Ég vildi óska þess að við gætum sett upp fleiri sýningar og eflt fræðslustarfið, og vil í því sambandi kalla eftir auknu fjármagni til þess. Ég tel að stjórnvöld verði samtímis að styrkja grasrótina og sjálfstæða hópa, sem eru að gera frábæra hluti, og einnig Íslensku óperuna sem setur upp stórar óperusýningar og pantar jafnframt reglulega ný óperuverk af íslenskum tónskáldum,“ segir Steinunn Birna.


Óvissan slæm fyrir alla

Í skýrslunni kemur fram að óvissa hafi ríkt um samningsstöðu Íslensku óperunnar allt frá því áform um ný sviðslistalög voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í september 2018. „Óvissa fyrir Íslensku óperuna er líka óvissa fyrir allt það fjölmarga listafólk sem hjá henni starfar og þar með áhorfendur. Það eru sameiginlegir hagsmunir allra að málið sé til lykta leitt. Niðurstaðan þarf að vera skýr, þótt allir verði sennilega ekki jafnsáttir við hana, svo hægt sé að halda fram með framtíðina. Í því samhengi er lykilatriði að faglega og málefnalega sé að allri umræðu og ákvörðunartöku staðið, enda þurfa allar ákvarðanir að vera vel ígrundaðar. Það er mjög mikilvægt þegar svona stórar ákvarðanir eru teknar að það sé gert með farsælum hætti þannig að það haldist samfella í starfinu, tengslunum og orðsporinu. Annað væri óskynsamlegt.

Við lýsum okkur reiðubúin til slíkrar samvinnu og samtals. Ósk mín er að óperustarfsemin fái þann stað í okkar menningarlífi sem hún verðskuldar og það öryggi sem hún er í raun búin að vinna sér inn réttinn til þess að hafa. Auðvitað tel ég að Íslenska óperan ætti að verða grunnurinn að þjóðaróperunni okkar ef af verður hvert sem rekstrarformið verður. Öryggið er þar mikilvægast, þar sem hlutverk þjóðaróperu er skýrt og því fylgi fjármagn í samræmi við faglega kostnaðargreiningu og væntingar.“



Eftir Elfa Sif Logadóttir 09 May, 2023
Söngvur­um í óper­unni Madama Butterfly var ákaft fagnað í Hörpu á lokasýningunni síðastliðinn laugardag. Þá sér­stak­lega söng­kon­unni Hye-Youn Lee, sem fór með aðal­hlut­verk Cio-Cio San í sýn­ing­unni. Sýningin fékk frábærar viðtökur meðal gagrýnanda og áhorfenda sem sáu sýninguna. Íslenska óperan þakkar öllum kærlega fyrir komuna.
Eftir Elfa Sif Logadóttir 28 Nov, 2022
Það vantaði ekki upp á stemn­ing­una og voru tón­leika­gest­irn­ir hver öðrum glæsi­legri.
ALLAR FRÉTTIR
Share by: