Jólatónleikum Íslensku óperunnar streymt á vefnum

24. desember 2020

Kór Íslensku óperunnar hefur á liðnum árum haldið árlega jólatónleika á Þorláksmessu í Hörpuhorninu í Hörpu, en vegna heimsfaraldursins reynist það ekki mögulegt í ár. Þess vegna er brugðið á það ráð að senda tónleikana út á vefjum RÚV og Íslensku óperunnar á aðfangadag klukkan 10:00 og sýna svo í sjónvarpi á milli jóla og nýárs.

Kór Íslensku óperunnar hefur hlotið frábæra dóma í óperuuppfærslum Íslensku óperunnar og unnið þar marga listræna sigra bæði í leik og söng. Söngvarar kórsins eiga margir langt söngnám að baki og búa yfir mikilli reynslu. Ýmsir söngvarar úr röðum kórsins hafa tekið að sér einsöngshlutverk í uppfærslum Íslensku óperunnar. Þeir eru mjög virkir í íslensku tónlistarlífi og koma víða fram með ýmsum sönghópum og kórum.

Stjórnandi kórsins er Magnús Ragnarsson. Hann starfar sem organisti í Langholtskirkju og stjórnar einnig kór kirkjunnar. Hann hefur stjórnað Söngsveitinni Fílharmóníu frá 2006 og ýmsum öðrum kórum, auk þess sem hann kennir kórstjórn við Listaháskóla Íslands og hefur unnið til ýmissa verðlauna.

Efnisskrá tónleikana er sett saman af vel þekktum jólalögum úr ýmsum áttum sem færa okkur heim jólin með jólakveðju frá Íslensku óperunni til allra landsmanna.

Eftir Elfa Sif Logadóttir 9. maí 2023
Söngvur­um í óper­unni Madama Butterfly var ákaft fagnað í Hörpu á lokasýningunni síðastliðinn laugardag. Þá sér­stak­lega söng­kon­unni Hye-Youn Lee, sem fór með aðal­hlut­verk Cio-Cio San í sýn­ing­unni. Sýningin fékk frábærar viðtökur meðal gagrýnanda og áhorfenda sem sáu sýninguna. Íslenska óperan þakkar öllum kærlega fyrir komuna.
Eftir Elfa Sif Logadóttir 28. nóvember 2022
Það vantaði ekki upp á stemn­ing­una og voru tón­leika­gest­irn­ir hver öðrum glæsi­legri.
ALLAR FRÉTTIR