Hádegistónleikar 2012-2013

GYÐJUR - HÁDEGISTÓNLEIKAR Á ÞRIÐJUDAGINN
13.11.2013
 

Þegar snjórinn er mættur á svæðið og vetrarmyrkrið skollið á er um að gera að gera sér dagamun og njóta tónlistar í hádeginu. Næstkomandi þriðjudag verða þær Antonia Hevesi, píanóleikari og Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, sópran í Norðurljósasal Hörpu. Yfirskrift tónleikanna er Gyðjur en á dagskránni verða óperuaríur eftir Purcell og Rossini, auk kantötunnar Arianna á Naxos eftir Haydn. Það er tilvalið að fá sér léttan hádegisverð í Munnhörpunni fyrir eða eftir tónleikanna sem hefjast klukkan 12.15 en aðgangur er ókeypis.

Meira
BYLGJA DÍS OG JÓHANN SMÁRI SYNGJA TOSCU OG ÓNEGÍN
22.05.2013

Síðustu hádegistónleikar Íslensku óperunnar í vetur verða nk. þriðjudag í Norðurljósasal Hörpu. Þá munu Bylgja Dís Gunnarsdóttir, sópran og Jóhann Smári Sævarsson, barítón syngja kafla úr Toscu eftir Puccini og Évgení Ónegín eftir Tsjajkovskí. Píanóleik annast Antonía Hevesi. Hádegistónleikarnir hefjast kl. 12.15 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Rétt er að benda á að mikil aðsókn hefur verið á hina mánaðarlegu hádegistónleika Óperunnar í vetur og oftar en ekki verið húsfyllir.

Meira
SÓPRANAR SYNGJA BELLINI OG PUCCINI
08.05.2013

Á þriðjudaginn kemur, 14. maí, verða næst síðustu hádegistónleikar Íslensku óperunnar á þessu starfsári. Á tónleikunum syngja þær Erla Björg Káradóttir og Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópransöngkonur aríur og dúetta eftir Bellini, Puccini ofl. Pianóleikari er Antonía Hevesi. Hádegistónleikarnir verða í Norðurljósasal Hörpu kl 12.15 og er aðgangur ókeypis.

Þessar tvær ungu sópransöngkonur hafa vakið athygli fyrir söng sinni á undanförnum misserum, bæði á vegum Íslensku óperunnar og utan hennar. Báðar hafa þær sungið á hádegistónleikum Óperunnar áður og hafa tekið þátt í sýningum Óperunnar, meðal annars La Boheme í fyrra. Erla Björg kemur reglulega fram með ÓP-hópnum, ma. söng hún titilhlutverkið í sýningunni Systir Angelica eftir Puccini, sem sýnd var í Tjarnarbíói fyrir skömmu. Hanna Þóra söng í haust aðalkvenhlutverkið í gamanóperunni La Serva Padrona eftir Pergolesi hjá Alþýðuóperunni auk þess sem hún söng hlutverk Inesar í Il Trovatore í haust hjá Íslensku óperunni.

Meira
HELGA RÓS INDRIÐADÓTTIR Á HÁDEGISTÓNLEIKUM
08.04.2013

Á næstu hádegistónleikum Íslensku óperunnar, þriðjudaginn 23. apríl, syngur sópransöngkonan Helga Rós Indriðadóttir óperuaríur eftir Verdi, Wagner og Puccini. Þetta er kjörið tækifæri fyrir höfuðborgarbúa til að hlýða á söng Helgu Rósar en nokkuð er nú um liðið síðan Helga Rós söng á tónleikum í Reykjavík. Píanóleikari er Antonía Hevesi. Hádegistónleikarnir eru í Norðurljósasal Hörpu og hefjast kl. 12:15. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Helga Rós er ein af okkar fremstu sópransöngkonum á óperusviðinu. Hún starfaði um árabil við óperuhús í Þýskalandi eftir að hún lauk námi við óperudeild Tónlistarháskólans í Stuttgart. Hún var fastráðin við Ríkisóperuna í Stuttgart í 8 ár og söng fjöldan allan af stórum hlutverkum. Hún var auk þess gestasöngvari í óperuhúsunum í Bonn, Karlsruhe og Wiesbaden. Hún hefur starfað með mörgum fremstu hljómsveitarstjórum og leikstjórum Evrópu. Lesa má nánar um feril Helgu Rósar hér að neðan.

Meira
ELSA WAAGE SYNGUR WESENDONCK SÖNGVA
18.03.2013
 
Næstu mánaðarlegu hádegistónleikar Íslensku óperunnar verða þriðjudaginn eftir viku, 26. mars kl. 12.15 í Norðurljósasal Hörpu. Elsa Waage, mezzósópran flytur þá Wesendonck-söngva Wagners en þessi söngvaflokkur er eitt þekktasta tónverk Wagners fyrir utan óperurnar. Tónlistina samdi Wagner við ljóð Mathilde Wesendonck, eiginkonu velgjörðarmanns síns og þykir hún einkar rómantísk og tilfinningaþrungin.

Elsa Waage hefur sungið víða um lönd á undanförnum árum en hún var lengi búsett á Ítalíu. Hún flutti nýverið heim og vakti í haust mikla athygli í einu aðalhlutverkanna, Azucenu, í sýningu Íslensku óperunnar á Il Trovatore eftir Verdi. Var hún ma. tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir frammistöðu sína.

Píanóleikari er Antonía Hevesi. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis.

Meira
GRÉTA OG ÁGÚST Í HÁDEGINU 26. FEBRÚAR
04.02.2013

Næstu hádegistónleikar Íslensku óperunnar verða þriðjudaginn 26. febrúar kl. 12:15 í Norðurljósasal Hörpu. Þá munu Gréta Hergils, sópran og Ágúst Ólafsson, baritón, syngja atriði úr óperu Donizettis Lucia di Lammermoor. Píanóleikari í tónleikum verður Antonía Hevesi.

Gréta Hergils Valdimarsdóttir stundaði nám við Söngskólann í Reykjavík undir handleiðslu Signýjar Sæmundsdóttur og Iwonu Aspar Jagla. Hún stundaði einnig nám við söngskólann Hjartans mál þar sem kennari hennar var Björk Jónsdóttir.

Meira
NÆSTU HÁDEGISTÓNLEIKAR 26. FEBRÚAR KL 12.15
30.01.2013

Næstu hádegistónleikar Íslensku óperunnar verða þriðjudaginn 26. febrúar kl. 12.15. Þá munu Gréta Hergils, sópran og Ágúst Ólafsson, baritón, syngja atriði úr óperu Gaetano Donizettis Lucia di Lammermoor. Píanóleikari verður Antonía Hevesi.

Meira
HÁDEGISTÓNLEIKAR 29. JANÚAR KL. 12.15
15.01.2013


Fyrstu mánaðarlegu hádegistónleikar Íslensku óperunnar á þessu ári verða nk. þriðjudag, 29. janúar kl.12:15 í Norðurljósum. Það er Gunnar Guðbjörnsson tenór, sem ríður á vaðið undir yfirskriftinni Í HIRÐ HANS HÁTIGNAR - úr hugarfylgsni konunga, riddara og annarra hirðmanna.

Gunnar hefur komið fram sem einsöngvari víða um heim. Hann var fastráðinn við óperuhúsin í Wiesbaden, Lyon, Staatsoper í Berlín og í Freiburg á árunum 1990-2010. Auk þess hefur hann komið fram við mörg önnur af helstu óperuhúsum Evrópu. Meðal þeirra má nefna Ríkisóperurnar í München og Vín, Bastilluóperuna í París, Konunglegu óperuna í Madrid og óperuhúsin í Palermo, Bologna, Toulouse, Marseille, Hamborg, Köln, Gautaborg og Lissabon.

Á tónleikunum syngur Gunnar aríur úr óperunum Idomenoe eftir Mozart, Macbeth eftir Verdi og óperum Wagners Meistarasöngvurunum í Nürnberg og Lohengrin. Píanóleikari er Antonía Hevesi. Hádegistónleikarnir verða í Norðurljósasal Hörpu og er aðgangur ókeypis.

Meira
SESSELJA SYNGUR SÖNGVA PÁLÍNU 18. DESEMBER KL. 12.15
13.12.2012

Hinir mánaðarlegu hádegistónleikar Íslensku óperunnar í Hörpu nk. þriðjudag 18.des. kl.12:15 verða að þessu sinni helgaðir tónskáldinu og mezzósópransöngkonunni Pauline Viardot, sem þykir ein merkilegasta söng-og tónlistarkona 19.aldarinnar. Sesselja Kristjánsdóttir mezzósópran og Antonía Hevesi píanóleikari flytja annars vegar nokkur sönglög eftir Pauline og hinsvegar frægar óperuaríur, sem sérstaklega voru samdar fyrir hana.

Hádegistónleikarnir verða í Norðurljósasal Hörpu og er aðgangur ókeypis.

Meira
HÁDEGISTÓNLEIKAR 13. NÓVEMBER KL 12.15
08.11.2012
Arndís Halla Ásgeirsdóttir, sópransöngkona og Antonia Hevesi, píanóleikari halda hádegistónleika á vegum Óperunnar í Norðurljósasalnum í dag þriðjudag kl.12:15.
 
Á efnisskránni eru óperuaríur eftir Mozart, Donizetti, Weber, Verdi og Offenbach. Arndís Halla hefur starfað við ýmis óperuhús í Þýskalandi og var um skeið fastráðin við Komische Oper í Berlín. Hún hefur sungið Næturdrottninguna víða í Þýskalandi, í Prag, í Seoul í Kóreu og í Íslensku óperunni. Hún söng hér síðast hlutverk Zerbinettu í Ariadne á Naxos. Síðustu ár hefur Arndís Halla vakið mikla athygli sem aðalsöngkona þýsku fjölskyldusýningarinnar Appasionata en sýningin hefur dregið að sér milljónir áhorfenda á ferðalögum víða um Evrópu. Hún hefur gefið út geisladiskana „Óður og „Keep on Walking með eigin textum og tónlist. - Antonia Hevesi er Íslendingum að góðu kunn. Hún hefur verið píanóleikari og æfingastjóri Íslensku óperunnar um árabil. - Aðgangur að tónleikunum er ókeypis.
Meira